Fréttir | 29. október 2021 - kl. 09:48
Skýrsla um stefnumörkun ferðaþjónustu í Húnavatnshreppi

Á sveitarstjórnarfundi Húnavatnshrepps í vikunni var lögð fram skýrsla vegna stefnumörkunar ferðaþjónustu í sveitarfélaginu. Skýrslan var unnin í samstarfi við Björn H. Reynisson og í henni eru margar áhugaverðar tillögur eins og uppbygging á útsýnisstað á Þrándarhlíðarfjalli, lýsing og bætt aðgengi að Hvammsfossi, uppbygging við Gullstein, útsýnispallur við Auðkúlurétt og gönguleið meðfram ströndinni frá Blönduósi að Þingeyrum og þaðan að Hvítserk.

Skýrsluna má lesa hér. Í henni er gerð innviðagreining á því hvað er í boði í Húnavatnshreppi í dag. Síðan eru settar fram tillögur um forgangsröðun verkefna og tillögur að markaðsaðgerðum. Þau verkefni sem lögð verður áhersla á í sveitarfélaginu næstu tvö árin eru Þrístapar, Gullsteinn, fossinn Mígandi í Vatnsdal, Ólafslundur, Vatnsdæla saga, Þrándarhlíðarfjall og Þingeyrar.

Sótt um styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða
Á sveitarstjórnarfundinum kom einnig fram að Húnavatnshreppur hefur sótt um styrki fyrir sjö verkefni úr Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Sex af þeim varðar framkvæmdir og eitt er vegna undirbúnings og hönnunar. Verkefnin eru:

  • Hvammfoss í Vatnsdal, uppbygging gönguleiðar, bifreiðaplan, lýsing á fossi o.fl.
  • Gullsteinn, lagfæring á bifreiðaplani, gönguleið að Gullsteini, smíði á krossi, rafmagnsvæðing o.fl.
  • Minnisvarði um Bríet Bjarnhéðinsdóttur, Haukagili, frágangur á umhverfi o.fl.
  • Vatnsdæla saga, endurnýjun á skiltum, lagfæring og merkingar á gönguleiðum, QR kóðavæðing á sögunni o.fl.
  • Þrístapar, uppsetning á alsjálfvirku salerni.
  • Ólafslundur, uppsetning á alsjálfvirku salerni.
  • Þrándarhlíðarfjall, hönnun á útsýnispalli ofan á núverandi endurvarpsstöð, merkingar o.fl.
Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga