Nýja slökkvistöðin á Blönduósi Ljósm: FB/Slokkvibill
Nýja slökkvistöðin á Blönduósi Ljósm: FB/Slokkvibill
Fréttir | 29. október 2021 - kl. 11:29
Samstarf um nýja slökkvistöð ekki verið á jafnréttisgrundvelli

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps finnst að samstarf Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps í Byggðasamlagi um brunavarnir hafi ekki verið á jafnréttisgrundvelli er varðar framgang uppbyggingar nýrrar slökkvistöðvar á Blönduósi. Þetta kemur fram í bókun sveitarstjórnarfundar þann 27. október síðastliðinn.

Í henni segir að framkvæmdum hafi verið stýrt með það fyrir augum að fullklára breytingar hússins í einum áfanga þvert á það sem gert hafi verið ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins 2021. Sveitarstjórn Húnavatnshrepps gekk út frá því að framkvæmdum yrði áfangaskipt og ekki kæmi til lántöku á þessu ári.

„Því kom það sveitarstjórn í opna skjöldu að framkvæmdum hefði verið stjórnað með þessum hætti. Blönduósbær hefur nú þegar lánað verulega fjármuni í áframhald framkvæmda án formlegrar heimildar stjórnar Byggðasamlagsins. Miðað við stöðu framkvæmda, er aðstaða slökkviliðsmanna engan veginn boðleg og í raun algerlega ábyrgðarlaust að ekkert sé í raun fullbúið til notkunar. Sveitarstjórn Húnavatnshrepps sér því ekki annað fært en samþykkja ábyrgð á viðbótar láni sem meirihluti stjórnar Brunavarna hefur nú óskað eftir.“

Á fundinum samþykkti sveitarstjórn svo samhljóða að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Byggðasamlags um brunavarnir í Austur-Húnavatnssýslu frá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 70 milljónir króna til 13 ára.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga