Fréttir | 29. október 2021 - kl. 12:09
Fyrirkomulag rjúpnaveiða 2021

Veiðitímabil rjúpu verður frá 1. - 30. nóvember í ár. Heimilt er að veiða fimm daga í viku, frá föstudegi til þriðjudags, en eins og síðustu ár er veiðibann á miðvikudögum og fimmtudögum. Sú breyting er þó gerð á að ekki verður heimilt að hefja leit eða veiði á rjúpu fyrr en klukka 12 þá daga sem heimilt er að veiða og skal veiði eingöngu standa á meðan birtu nýtur.

Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra. Eru veiðimenn hvattir til að takmarka veiðar í ljósi bágrar stöðu rjúpnastofnsins.

Stærð rjúpnastofnsins hefur dregist saman síðustu ár og hefur hann ekki verið minni síðan árið 2003. Veiðistofninn er einn sá minnsti síðan mælingar hófust árið 1995 og aðeins einu sinni áður, árið 2002, hefur veiðistofninn verið metinn svo lítill.

Fyrir liggur veiðiþol rjúpnastofnsins samkvæmt mati Náttúrufræðistofnunar Íslands sem er 20 þúsund fuglar í ár. Reynsla undanfarinna ára sýnir að raunveiði hefur verið talsvert umfram ráðgjöf þegar stofn rjúpu er í lágmarki, og var búist við um 30 þúsund fugla veiði miðað við óbreytta veiðistjórn. Því óskaði umhverfis- og auðlindaráðuneytið eftir frekari greiningu Umhverfisstofnunar á stjórntækjum vegna rjúpnaveiða með það að markmiði að halda heildarveiðinni við ráðlagðan fjölda, 20.000 fugla.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra hvetur veiðimenn til að veiða ekki meira en 3-4 rjúpur eða bara sleppa því í ár svo rjúpan njóti vafans.

Fyrirkomulag rjúpnaveiða í eignarlöndum Húnaþings vestra
Sveitarfélagið Húnaþing vestra hefur gefið út fyrirkomulag rjúpnaveiða í eignarlöndum þess og má lesa um það hér. Veiðimönnum með gilt veiðikort útgefið af Veiðistjórnunarsviði Umhverfisstofnunar stendur til boða að kaupa sérstakt veiðileyfi útgefið af Húnaþingi vestra er veitir þeim einum heimild til rjúpnaveiða í eignarlöndum sveitarfélagsins. Um verður að ræða tvennskonar leyfi sem gefin verða út á jafnmörg svæði. Verð fyrir hvert leyfi er 9.000 krónur á dag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga