Langidalur
Langidalur
Fréttir | 05. nóvember 2021 - kl. 09:39
Lélegt GSM samband á þriðjungi sveitabæja

Slæmt farsímasamband er á allt að þriðjungi sveitabæja á Norðurlandi vestra. Þetta sýnir könnun á vegum Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, sem hefur skorað á stjórnvöld að aftengja ekki síma í gegnum koparlínur fyrr en almennilegt GSM samband er komið á svæðið. Rætt var við Unni Valborgu Hilmarsdóttur, framkvæmdastjóra SSNV í Ríkisútvarpinu á dögunum um málið.

Við gerð samgöngu- og innviðaáætlunar Norðurlands vestra árið 2019 gerði SSNV könnun á fjarskiptasambandi í dreifbýli þar sem útbreiðslukort símafyrirtækja sýndi ekki rétta mynd af raunverulegu sambandi. Í ljós kom að 20-30 prósent sveitabæja bjó ekki við almennilegt GSM-samband. Unnur Valborg sagði í samtali við Ríkisútvarpið að ástandið virðist lítið hafa batnað. „Og mér sýnist, af þeim niðurstöðum sem ég er komin með úr þessari nýju könnun, að það sé bara sambærilegt.“

Þetta sýni að enn búi fjöldi heimila á Norðvesturlandi við lítið eða ekkert farsímasamband. „Og ekki bara heimilin. Því vinnusvæði bænda er víða mjög stórt og það er gríðarlega mikið öryggisatriði fyrir bændur að þar sé fjarskiptasamband ef eitthvað kemur upp á.“

Sjá nánari umfjöllun á Rúv.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga