Mynd: AST Norðurlandi vestra.
Mynd: AST Norðurlandi vestra.
Fréttir | 08. nóvember 2021 - kl. 13:48
Tíu í einangrun vegna COVID-19

Samkvæmt tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra, sem send var á Facebook í gær eru tíu í einangrun í landshlutanum vegna COVID-19 og 32 eru í sóttkví. Í tilkynningunni segir að smit hafi greinst í flest öllum og að þrátt fyrir að ekki séu smit í öllum póstnúmerum á Norðurlandi vestra megi íbúar umdæmisins ekki sofna á verðinum hvað varðar sóttvarnir.

„Skylt er að bera grímu þegar ekki er unnt að virða 1 metra nálægðarreglu höfum það að leiðarljósi. Munum okkar persónulegu sóttvarnir og umfram allt og ekki síst að við erum öll almannavarnir!!,“ segir í tilkynningunni.

Í gær greindust 117 með kórónuveiruna á landinu og þar af voru 66 í sóttkví við greiningu. Af þeim sem greindust voru 45 óbólusettir. Fimm smit greindust á landamærunum. Átján eru á sjúkrahúsi, þar af fimm á gjörgæslu. Tekin voru 3.408 sýni, þar af 1.244 einkennasýni. Alls eru nú 1.157 í einangrun vegna COVID-19 og 2.410 eru í sóttkví.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga