Óboðlegur Vatnsnesvegur. Mynd: hunathing.is
Óboðlegur Vatnsnesvegur. Mynd: hunathing.is
Fréttir | 30. nóvember 2021 - kl. 16:26
Söfnun fyrir betri Vatnsnesvegi fer hægt af stað

Hópsöfnun sveitarstjórnar Húnaþings vestra á Karolina Fund fyrir betri Vatnsnesvegi fer hægt af stað. Markmiðið er að safna 100 milljónum króna og nú þegar rétt vika er liðin frá því söfnunin hófst hefur safnast um 75 þúsund krónur. Vatnsnesvegur hefur ítrekað verið til umfjöllunar síðustu ár og orðinn landsfrægur fyrir að vera sérlega holóttur malarvegur í slæmu ástandi, eiginlega ónýtur.

Ástæða þess að sveitarstjórn setti söfnunina af stað er seinagangur stjórnvalda með að taka veginn í gegn og vill hún leggja sitt af mörkum til að flýta framkvæmdum við veginn. „Þetta var möguleiki sem við sáum í stöðunni, að fara af stað með hópfjármögnun og fá landsmenn og aðra sem unna Vatnsnesinu að aðstoða okkur við það að safna fyrir því að við getum byrjað á framkvæmdum fyrr en ætlað er á samgönguáætlun,“ sagði Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra nýlega í viðtali við Ríkisútvarpið.

Vegurinn er 70 kílómetrar og er áætlað að það kosti 3,5 milljarða að byggja hann upp og malbika. Sveitarfélagið stefnir að því að safna 100 milljónum með samskotum og afhenda þær samgönguráðuneytinu. Ragnheiður sagði að farið verði fram á að söfnunarféð verði eyrnamerkt því að hönnun vegarins farið strax af stað. Þannig verði tilbúin hönnun og hægt að færa framkvæmdir fyrr á samgönguáætlun.

Tengd frétt
Vatnsnesvegur í hópfjármögnun á Karolina Fund

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga