Fréttir | 15. desember 2021 - kl. 14:30
Fjárhagsáætlun Blönduósbæjar 2022 samþykkt
Rekstrarniðurstaðan neikvæð

Fjárhagsáætlun Blönduósbæjar fyrir árið 2022 var samþykkt á sveitarstjórnarfundi í gær. Í henni kemur fram að rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins er áætluð neikvæð um 46 milljónir króna. Áætlað er að heildartekjur verði 1.379 milljónir, rekstrargjöld 1.357 milljónir og fjármagnsgjöld 68 milljónir. Fjárfestingar eru áætlaðar tæplega 70 milljónir á árinu, m.a. vegna verkloka á einni stærstu einstöku fjárfestingu sveitarfélagsins, sem er verknámshúsið við Blönduskóla.

Gert er ráð fyrir 130 milljón króna lántöku á árinu 2022 og að afborganir langtímalána verði 154 milljónir króna. Langtímaskuldir munu hækka á árinu um rúmar 58 milljónir á milli ára. Gjaldskrár hækka almennt um 3%, sem er í samræmi við uppfærða þjóðhagsspá Hagstofu Íslands, og forsendur fjárhagsáætlana frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Í bókun sveitarstjórnar segir: „Fjárhagsáætlun Blönduósbæjar, eins og annara sveitarfélaga á landinu, er nú unnin við óvenjulega erfiðar aðstæður en einnig hefur það áhrif á áætlunina að u.þ.b. 72% hlutur Blönduósbæjar í Byggðasamlagi um brunavarnir í A-Hún., er nú tekinn með í áætlunina. Þá hefur málaflokkur um félagsmál hækkað óvenju mikið, en hann er nú rekinn annars vegar af byggðasamlagi og hins vegar leiðandi sveitarfélagi. Í ljósi aðstæðna þá mun reglulega verða tekin staða á forsendum rekstrar og hún endurmetin um mitt ár og gerðar viðeigandi ráðstafanir fyrir síðari hluta ársins, miðað við þróun mála.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga