Fréttir | 16. desember 2021 - kl. 06:40
Fjárhagsáætlun Húnavatnshrepps 2022 samþykkt
Rekstrarniðurstaðan neikvæð

Fjárhagsáætlun Húnavatnshrepps fyrir árið 2022 var samþykkt á sveitarstjórnarfundi í gær. Í henni kemur fram að rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins er áætluð neikvæð um 19 milljónir króna. Áætlað er að heildartekjur verði 518 milljónir, rekstrargjöld 484 milljónir, afskriftir 29 milljónir fjármagnsgjöld 24 milljónir.

Í fundargerð sveitarstjórnar segir um fjárhagsáætlunina: „Þrátt fyrir miklar framkvæmdir á liðnum árum er fjárhagsstaða sveitarfélagsins góð. Sífellt erfiðara verður að uppfylla kröfur um að áætlanir sýni jákvæða rekstrarniðurstöðu vegna aukins kostnaðar við nær alla málaflokka. Þar vegur aukinn launakostnaður þyngst meðal annars vegna styttingu vinnuvikunnar á meðan tekjur hafa ekki aukist í sama hlutfalli.“

Auk hefðbundinna viðhaldsframkvæmda á næsta ári er áætlað viðhald á Félagsheimilinu Húnaveri um 23 milljónir og Félagsheimilinu Dalsmynni fyrir 11 milljónir. Allt að 32 milljónir verða settar í viðhald rétta og girðinga, þar af í Auðkúlurétt um 15 milljónir. Áfram verður unnið að endurbótum á öðrum fasteignum sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að sveitarfélagið taki lán á árinu 2022 fyrir allt að 90 milljónum króna til að standa undir viðhaldsframkvæmdum. 

Sjá má nánar um fjárhagsáætlun Húnavatnshrepps hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga