Fréttir | 16. desember 2021 - kl. 06:54
Fjárhagsáætlun Húnaþings vestra 2022 samþykkt
Rekstrarniðurstaðan neikvæð

Fjárhagsáætlun Húnaþings vestra fyrir árið 2022 var samþykkt á sveitarstjórnarfundi nýverið. Í henni kemur fram að rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins er áætluð neikvæð um 76 milljónir króna. Áætlað er að heildartekjur verði 1.751 milljónir, rekstrargjöld 1.692 milljónir, afskriftir 78 milljónir fjármagnsgjöld 57 milljónir.

Í fundargerð sveitarstjórnar segir um fjárhagsáætlunina: Undanfarin ár hefur rekstur sveitarfélagsins verið í góðu jafnvægi. Hefur það leitt til þess að sveitarsjóður hefur ekki þurft að sækja í lántökur fyrir rekstri, en að sama skapi hefur verið gengið á eigið fé vegna afleiðinga heimsfaraldursins á fjármál Húnaþings vestra. Í ljósi þess að annað árið í röð er lögð fram fjárhagsáætlun með neikvæðri rekstrarafkomu þarf að gæta aðhalds með það að markmiði að snúa neikvæðri rekstrarniðurstöðu sveitarfélaginu í hag strax árið 2023. Gríðarlega mikilvægt er að sýna ráðdeild í rekstri, ljúka viðbyggingu Grunnskóla Húnaþings vestra og halda fjárfestingum komandi ára í lágmarki á meðan sveitarsjóður nær að jafna sig og hjól hagkerfis heimsins fara að snúast að nýju.“

Sjá má nánar um fjárhagsáætlun Húnaþings vestra hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga