Frá Blönduósflugvelli. Ljósm: FB/Guðmundur Haukur
Frá Blönduósflugvelli. Ljósm: FB/Guðmundur Haukur
Fréttir | 18. desember 2021 - kl. 17:17
Krafa gerð um flugvöll sem hægt er að treysta á

Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti bæjarstjórnar Blönduósbæjar, sagði í samtali við Ríkisútvarpið á fimmtudaginn að eftir að alvarlegt rútuslys varð við Blönduós fyrir tæpum tveimur árum hafi verið sterk krafa í samfélaginu að hafa þar flugvöll sem hægt væri að treysta á. Tilefni viðtalsins voru orð Bjarna Jónssonar, þingmanns Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, úr ræðustól á Alþingi á þriðjudaginn.

Benti hann á að tryggt aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu skipti miklu máli fyrir búsetuöryggi og það væri því ótækt að flugvöllurinn á Blönduósi væri ekki lagður bundnu slitlagi.

Húnahornið fjallaði fyrst um málið á þriðjudaginn. Í ræðu sinni skoraði Bjarni á samgönguyfirvöld að gegna því hlutverki sínu að sjá til þess að þessu mikilvæga verki verði lokið sem fyrst, enda standa til þess ríkir almannahagsmunir.

Í samtali við Ríkisútvarpið sagði Guðmundur Haukur að búið væri að laga svolítið til á flugvellinum en að grunnurinn þurfi að fá betri aðhlynningu. „Þetta er sennilega eini sjúkraflugvöllurinn á landinu sem er ekki með bundið slitlag á yfirborðinu. Það gerðist bara núna á þessu ári í sjúkraflugi að völlurinn var bara það mjúkur að lá við að sjúkraflugvélin stæði föst þegar hún var að snúa við á endanum á brautinni,“ sagði Guðmundur.

Hann sagði einnig að grjótkast væri á vellinum sem geti skemmt vélarnar. Það kemur einnig fyrir að flugmenn eru ekki alltaf tilbúnir til að lenda á vellinum. Þegar ekki er hægt að lenda flugvélum þarf að senda sjúklinga með sjúkrabíl sem getur undir vissum kringumstæðum tekið of langan tíma eða jafnvel að vegir séu ófærir.

Sjá nánari umfjöllun á vef Ríkisútvarpsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga