Fréttir | 21. desember 2021 - kl. 10:04
Tónleikar í Hvammstangakirkju í kvöld

Jólahúnar í Húnaþingi vestra ætla að syngja jólin inn í Hvammstangakirkju í kvöld klukkan 20. Miðaverð er 3.000 krónur og er borgað inn við hurð en enginn posi er á staðnum. Allur hagnaður af tónleikunum rennur óskiptur til Margrétar Eikar Guðjónsdóttur sem verður næstu mánuði frá vinnu að jafna sig eftir krabbameinsaðgerð.

Í tilkynningu segir að Jólahúnar sé hugarfóstur Skúla Einars heitins sem lést í nóvember eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Einkunnarorð tónleikanna hans Skúla voru og eru "Samstaða og kærleikur".

Tónleikarnir eru styrktir af Sóknaráætlun Norðurlands vestra og Kaupfélagi Skagfirðinga.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga