Fréttir | 21. desember 2021 - kl. 13:43
Jólaskógurinn á Gunnfríðarstöðum
Frá Skógræktarfélagi Austur-Húnvetninga

Austur-Húnvetningar komu margir í jólaskóginn á Gunnfríðarstöðum síðastliðinn laugardag 18. desember. Veður mjög gott, hægviðri og hiti. Gott göngufæri í skóginum og veghefill á Bakásavegi á föstudegi en búið að vera ófært vegna hálku víða í hérað.

Grenitré og furur eru orðin nokkuð stór hjá okkur en sagað hefur verið ofanaf sumum þeirra síðustu árin en þörf er á grisjun í skóginum og ekki síður er mikilvægt að gefa Húnvetningum kost á að koma í sinn jólaskóg. Þeir eru orðnir nokkrir í héraði og er það mikið gleðiefni. Góð viðbót við okkar menningu.

Blágreni er oftast tekið með heim í stofu og þá einnig rauðgreni og stafafura sem mest er selt af á landsvísu. Tröpputrén (fótur sem er af föllnum sverum trjábol, lerki eða alaskaösp og síðan lítið grenitré sett oní fótinn) njóta vaxandi vinsælda og eru góð á „tröppur“ fram í útmánuði.

Skemmtileg skógarstemming var við nýja bjálkakofann sem risinn er í skóginum og gerir aðstöðuna betri fyrir starfsfólkið sem stóð sig vel að vanda og þá einnig smiðirnir við smíðina. Ekki var hægt að hafa vinsæla skógarkaffið okkar út af „útaf svolitlu“.

Í nóvember var grisjunarflokkur að störfum á Gunnfríðarstöðum og voru unnin 8 dagsverk við tvo lerkireiti en þar var gróðursett um 1970. Reitirnir eru við bjálkakofann og var mikið um brotin og rótarslitin tré eftir óveðrið í desember 2019. Hluti af þeim nýtast sem fætur á tröpputrén. Verktakarnir sáu einnig um að fella torgtrén sem eru á Blönduósi og Skagaströnd.

Skógræktarfélag Austur – Húnvetninga óskar Húnvetningum gleðilegrar hátíðar og farsæls komandi árs.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga