Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Arnarhvoli við Lindargötu. Mynd: stjornarradid.is
Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Arnarhvoli við Lindargötu. Mynd: stjornarradid.is
Fréttir | 29. desember 2021 - kl. 19:05
Skattabreytingar um áramót

Um áramót taka gildi ýmsar skattabreytingar sem snerta bæði heimili og fyrirtæki í landinu. Sem dæmi þá tekur gildi nýtt viðmið um þróun þrepa- og skattleysismarka tekjuskatts einstaklinga. Breytingin er síðasti áfangi skattkerfisbreytinga fyrir einstaklinga síðustu ár, þar sem tekjuskattur hefur lækkað, mest hjá tekjulægri hópum. Þrepa- og skattleysismörk munu þá þróast í takt við vísitölu neysluverðs að viðbættu mati á langtímaframleiðni.

Barnabætur
Þríþættar breytingar á barnabótum eru boðaðar. Fjárhæðir barnabóta munu hækka á bilinu 5,5% til 5,8%. Þá munu neðri skerðingarmörk tekjustofns barnabóta hækka um 8,0% og efri skerðingarmörk tekjustofns barnabóta um 12%. Hækkun neðri skerðingarmarka leiða til þess að foreldrar geti haft hærri tekjur án þess að það komi til skerðingar á barnabótum.

Tryggingagjald
Í ársbyrjun mun tímabundin lækkun á almenna tryggingagjaldinu, sem var hluti af aðgerðarpakka stjórnvalda vegna efnahagsáhrifa kórónuveirunnar, renna sitt skeið á enda. Skatthlutfall almenns tryggingagjalds mun því fara úr 4,65% í 4,9%. Tryggingagjald í heild breytist þannig úr 6,1% í 6,35%.

Erfðafjárskattur
Skattfrelsismark erfðafjárskatts tekur árlegri breytingu miðað við þróun vísitölu neysluverðs og hækkar úr 5.000.000 kr. í 5.255.000  ársbyrjun 2022. Er það í samræmi við samþykktar breytingar við afgreiðslu fjárlaga 2021 þar sem skattfrelsismarkið var hækkað úr 1,5 m.kr. í 5 m.kr. og skyldi framvegis taka árlega breytingu miðað við þróun vísitölu neysluverðs. Skatthlutfallið helst óbreytt.

Krónutölugjöld á eldsneyti, áfengi, tóbak o.fl.
Krónutölugjöld (s.s. bensín- og olíugjöld, bifreiðagjald, kolefnisgjald, áfengisgjald og tóbaksgjald) hækka um 2,5% um næstu áramót en það er lækkun að raungildi þar sem hækkunin er minni en nemur verðbólgu frá síðustu verðlagsuppfærslu sem er mæld 5,1%. Lágmark bifreiðagjalds hækkar um 1.000 kr. til viðbótar við 2,5% verðlagsuppfærslur.

Virðisaukaskattur
Um áramótin mun hámark á niðurfellingu VSK við kaup á tengiltvinnbifreið lækka um helming og fara úr 960.000 kr. í 480.000 kr. á hverja bifreið. Hámark á niðurfellingu VSK fyrir rafmagns- og vetnisbifreiðar verður óbreytt. Niðurfellingu á VSK lýkur fyrir hvern flokk þegar annað hvort 15 þús. bifreiða fjöldamarki er náð eða við lok gildistíma.

Endurgreiðslur á 100% VSK vegna vinnu sem unnin er á byggingarstað eða við endurbætur og viðhald á íbúðarhúsnæði verða framlengdar til og með 31. ágúst 2022 og lækka þá niður í 60%. Einnig munu aðrar endurgreiðslur á 100% VSK verða framlengdar til og með 30. júní 2022 og falla  þá að fullu niður. Endurgreiðsla á 100% VSK vegna bílaviðgerða verður ekki framlengd og fellur því niður um næstu áramót.

Skoða má nánar skattabreytingar um áramót á vef Stjórnarráðsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga