Hlynur Rafn. Mynd af visir.is
Hlynur Rafn. Mynd af visir.is
Fréttir | 30. desember 2021 - kl. 10:32
Ryður snjó af gangstéttum á Hvammstanga

Hlynur Rafn Rafnsson er hvunndagshetja á Hvammstanga en hann tók sig til í haust og keypt sér ruðningstæki og sanddreifara á fjórhjól sitt. Það hefur hann svo notað í vetur til að ryðja snjó af gangstéttum á Hvammstanga, við mikla kátínu bæjarbúa. Hlynur vinnur hjá Vegagerðinni við að byggja brýr og dundar hann sér við snjóruðninginn í fríum og hefur gaman af. Vísir.is segir frá þessu í dag.

Fyrr í þessum mánuði var einnig rætt við Hlyn í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Þar sagði hann ástandið á gangstéttum Hvammstanga sérstaklega slæmt á morgnana þegar dimmt væri og fólk og börn neyddust til að ganga á götum bæjarins.

Hlynur segir í samtali við Vísi að þetta sé fyrst og fremst ákveðin tækjadella í sér. Hann eigi fyrir vélsleða, krossara, fjórhjólið og önnur tæki. Snjóruðningurinn hafi þó byrjað út af áhyggjum hans af gangi fólks um götur Hvammstanga á morgnana.

Hann byrjaði að ryðja sína götu en þetta „skrítna áhugamál“ hafi undið upp á sig eins og augljóst er miðað við að hann var nýbúinn að ryðja flestar gangstéttir Hvammstanga. Þá segir Hlynur bæjarbúa hafa tekið vel í snjóruðninginn og hann fái alltaf hrós í hvert sinn sem hann fari af stað.

Sjá nánari umfjöllun á visir.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga