Blönduósflugvöllur. Mynd: Róbert Daníel Jónsson
Blönduósflugvöllur. Mynd: Róbert Daníel Jónsson
Fréttir | 30. desember 2021 - kl. 17:05
Skýrsla starfshóps um öryggi lendingarstaða

Skýrsla starfshóps um öryggi lendingarstaða hefur verið birt á vef Stjórnarráðsins. Þar segir að niðurstöður og tillögur skýrslunnar muni nýtast vel við endurskoðun samgönguáætlunar og tillögugerð á næstu árum. Verkefnið var skilgreint í flugstefnu í núgildandi samgönguáætlun 2020-2034 sem Alþingi samþykkti sumarið 2020. Starfshópurinn telur m.a. að gera þurfi tilteknar ráðstafanir vegna Blönduósflugvallar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, skipaði starfshópinn (þá sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra) í júní síðastliðnum til að leggja mat á lendingarstaði út frá öryggi þeirra. Verkefnið var að leggja heildstætt mat á mikilvægi lendingarstaða á Íslandi út frá öryggishlutverki þeirra í víðum skilningi.

Verkefnið var afmarkað við skráða lendingarstaði án áætlunarflugs og loftför sem nýtt eru til almannavarna, svo sem þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar. Einnig var það m.a. afmarkað við að sinna þurfi hefðbundnu sjúkraflugi, bregðast þurfi við fjölmennu slysi á landi eða sjó, flytja þurfi hóp fólks í sætum með fljótvirkum hætti eða rof verði á mikilvægri samgönguleið vegna hamfara.

Niðurstöður vinnuhópsins voru að sjúkra- og öryggisflugvöllur sem nýtast á flugvél Landhelgisgæslunnar og sjúkraflugvélum við erfiðar aðstæður þurfi að uppfylla eftirfarandi kröfur: Flugbraut hans þarf að lágmarki að vera klædd, 1.000 m löng og 30 m breið, flugbrautarljós þurfa að vera (þröskulds, enda- og hliðarljós), aðflugshallaljós, RNP-aðflug (gervihnattaleiðsaga) og upplýsingaþjónusta (veður og ástand flugvallar). Þá þarf að halda flugbraut hreinni og hálkuverja eftir þörfum.

Gerð er tillaga um hvaða lendingarstaðir ættu að vera til reiðu fyrir sjúkraflug og flug tengt þjóðaröryggi og náttúruvá.

Starfshópurinn telur m.a. að gera þurfi tilteknar ráðstafanir vegna núverandi sjúkraflugvalla á Blönduósi, Sauðárkróki, í Reykjahlíð og Norðfirði til að uppfylla kröfurnar. Starfshópurinn telur að byggja þurfi upp sjúkraflugvöll í Skaftafelli eða Fagurhólsmýri. Þá þurfi að skilgreina Rif og Bakka sem sjúkraflugvelli og byggja upp og viðhalda sem slíkum. Starfshópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að þétta þurfi net sjúkraflugvalla. Skoða þurfi sérstaklega möguleika á að byggja upp nærri fjölförnustu ferðamannastöðunum þar sem langt er í bjargir, s.s. á Kirkjubæjarklaustri, Vík og Hólmavík.

Sjá nánar á vef Stjórnarráðsins og skýrsluna má lesa hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga