Fréttir | 31. desember 2021 - kl. 09:08
Árið kvatt með flugeldasýningum

Flugeldasýningar verða á þremur stöðum í Húnavatnssýslum í kvöld, gamlárskvöld, á Hvammstanga klukkan 21, Blönduósi klukkan 20:45 og Skagaströnd klukkan 21:30. Áramótabrennum hefur verið aflýst á Hvammstanga og Skagaströnd vegna sóttvarnaaðgerða en á Blönduósi verður brenna á Miðholtinu, með öðru sniði en venjulega. Lokað verður fyrir almenning á Miðholtið og brennan minni en síðustu ár. Kveikt verður í brennunni klukkan 20.

Athygli er vakin á því að flugeldasýningin á Hvammstanga verður í beinni útsendingu á facebooksíðu Björgunarsveitarinnar Húna.

Sýnum aðgát við notkun flugelda um áramótin
Húnahornið brýnir fólk að sýna fyllstu aðgát við notkun flugelda og blysa. Brýnt er að gæta þess að börn séu ekki að nota skotelda sem þau hafa ekki þroska til að fara með og að þau séu í öruggu skjóli. Allir sem kveikja á skoteldum eiga að hafa öryggisgleraugu og vera í klæðnaði sem ekki flækist fyrir eða fuðrar upp við minnsta neista. Þá er mikilvægt að flugeldar eða blys séu á traustum undirstöðum þegar verið er að kveikja á þeim.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga