Hvammstangi. Skjáskot af ruv.is
Hvammstangi. Skjáskot af ruv.is
Fréttir | 03. janúar 2022 - kl. 12:11
Bjartsýni ríkjandi í Húnaþingi vestra

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gær var sagt frá mikilli uppbyggingu sem á sér stað á Hvammstanga en þar eru á annan tug íbúða í byggingu auk annarra framkvæmda. Rætt er við Friðrik Má Sigurðsson, formann byggðarráðs Húnaþings vestra, og segir hann að á Hvammstanga séu öflugir innviðir og fjölbreytt og öflugt menningar- og félagsstarf. Hvammstangi sé því mjög ákjósanlegur staður fyrir fólk og fjölskyldur.

Í fréttinni kemur fram að á síðustu þremur til fjórum árum hafi ásókn í íbúðalóðir á Hvammstanga aukist mikið. Engin gatnagerðargjöld séu lögð á lóðir við tilbúnar íbúðagötur og það hafi meðal annars hvatt fólk til að byggja. Bæði sé byggt á Hvammstanga og í dreifbýlinu. Þrettán íbúðir séu nú í byggingu eða í undirbúningi og þrjár umsóknir um íbúðarlóðir hafi borist til viðbótar.

Friðrik Már segir að frá 2016 hafi íbúum Húnaþings vestra fjölgað um 70 og að fólkið sem er að byggja sé fólk sem er að koma heim aftur, fólks sem er að hreyfa sig á svæðinu og fólk sem er að flytja á staðinn.

Sjá má fréttina í Ríkissjónvarpinu hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga