Fréttir | 05. janúar 2022 - kl. 13:45
SSNV tekur þátt í tveim brúarverkefnum NPA

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra er þátttakandi í tveimur brúarverkefnum af sjö sem hlotið hafa styrki úr atvinnu- og byggðþróunarsjóði Norðurslóðaáætlunar. Annað verkefnið varðar sjálfbæra hjólaferðamennsku í norðlægum- og dreifðum byggðum þar sem aðrir þátttakendur koma frá Finnlandi, Skotlandi, Færeyjum og Norður-Írlandi. Hitt verkefnið snýst um grænt viðskiptamódel þar sem unnið er með litlum- og meðalstórum fyrirtækjum í að nýta myrkur sem auðlind í vetrarferðamennsku.

Undir lok síðasta árs var tilkynnt hvaða 22 verkefni hefðu fengið brautargengi sem svokölluð brúarverkefni  úr atvinnu- og byggðþróunarsjóði Norðurslóðaráætlunar. Verkefnunum er ætlað að byggja brú á milli áherslna 2014-2020 áætlunarinnar og 2021-2027 áætlunarinnar með áherslum beggja. Á sex mánaða verkefnatíma er unnið að þróun verkefnishugmyndar með mögulegum samstarfsaðilum og umsókn til sjóðsins um aðalverkefni undirbúin.

Auk þessara beggja verkefna er SSNV, ásamt Íslenska ferðaklasanum, að leggja upp í evrópskt samstarfsverkefni sjö landa þar sem áherslan er á seiglu og samkeppnishæfni lítilla og meðalstórra fyrirtækja í ferðaþjónustu og eflingu hæfni þegar kemur að nýsköpun ásamt því að hvetja til hraðari stafrænni umbreytinga.

Sjá nánari umfjöllun á vef SSNV.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga