Frá Skagastrandarhöfn
Frá Skagastrandarhöfn
Fréttir | 20. janúar 2022 - kl. 11:13
Hvetur ráðherra að hverfa frá niðurskurði aflaheimilda til strandveiða

Sveitarstjórn Skagastrandar hvetur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að hverfa frá 1.500 tonna niðurskurði aflaheimilda til strandveiða á árinu. Sveitarstjórn telur að embættisverk ráðherra ættu að miða að því að tryggja strandveiðiflotanum nægar heimildir til þess að stunda veiðar 48 daga á ári enda myndi slíkt styrkja sjávarbyggðir um land allt.

Þetta kemur fram í bókun sveitarstjórnar frá fundi sínum í gær. Í henni kemur fram að á síðasta fiskveiðiári hafi 34 bátar landað strandveiðiafla á Skagaströnd og hafi hann numið um 613 tonnum eða um 5% strandveiðiafla á landinu öllu. Umtalsverð nýliðun hafi átt sér stað innan smábátaútgerðar á Skagaströnd á undanförnum árum sem tengja megi beint við strandveiðikerfið.

Svandís Svavars­dótt­ir, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra hef­ur að undanförnu verið gagn­rýnd af strand­veiðisjó­mönn­um fyr­ir að láta skert aflamark í þorski verða til þess að 15% skerðing verði á afla­heim­ild­um sem ætlað er strand­veiðum. Í fyrra var veiðunum veitt­ar heim­ild­ir fyr­ir 10.000 tonnum af þorski en í ár verða það að óbreyttu 8.500 tonn.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga