Fréttir | 11. maí 2022 - kl. 13:21
Aðalskrifstofa sýslumanna verði á Norðurland vestra

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra óskar eftir því að aðalskrifstofa sýslumanna verði staðsett á starfssvæði samtakanna að lokinn endurskipulagningu sem fyrirhuguð er á sýslumannsembættum landsins. Nýverið fundaði framkvæmdastjóri SSNV og tveir stjórnarmenn með ráðherra um breytingarnar og mátti á máli hans merkja vilja til að efla starfsstöðvar sýslumanna á landsbyggðinni samhliða breytingunum. Stjórn SSNV fagnar þeirri áherslu. Þetta kemur fram í nýjustu fundargerð SSNV.

Dómsmálaráðherra hefur hleypt af stokkunum gagngerri endurskoðun á skipulagi sýslumannsembætta. Markmiðið er að efla núverandi starfsemi þannig að úr verði öflugar og nútímalegar þjónustueiningar, einskonar stjórnsýslustöðvar ríkis í heimabyggð, sem veita framúrskarandi þjónustu hvar og hvenær sem er, allt eftir óskum og þörfum almennings. Á meðal breytinga sem verið er að skoða er að fækka sýslumannsembættum í landinu úr níu í eitt.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga