Fréttir | 26. júní 2022 - kl. 10:54
Ingvi Rafn skoraði þrennu í góðum heimasigri

Kormákur Hvöt lyfti sér upp úr fallsæti 3. deildar í gær með góðum sigri á Elliða en leikið var á Blönduósvelli. Ingvi Rafn Ingvarsson sá um markaskorun fyrir heimamenn og gerði þrjú mörk, sem dugðu til sigurs þar sem gestirnir úr Árbænum skoruðu bara tvö mörk. Leikurinn byrjaði fjörlega og strax á 4. mínútu skoraði Ingvi Rafn sitt fyrsta mark og fjórtán mínútum síðar var hann búinn að tvöfalda forystuna fyrir Kormák Hvöt. Elliði náði að minnka muninn áður en flautað var til hálfleiks.

Staðan í hálfleik var því 2-1 fyrir heimamenn en á 66. mínútu breyttist hún í 3-1 og þrenna Ingva Rafns orðin staðreynd. Elliði hleypti smá spennu í leikinn með marki á 76. mínútu en Kormákur Hvöt sigldi góðum sigri heim, lokatölur 3-2.

Kormákur Hvöt með í þriðja neðsta sæti deildarinnar með níu stig, jafnmörk og ÍH sem er sæti ofar og KFS sem er sæti neðar. Tvö stig eru svo í næstu lið fyrir ofan en Vængir Júpíters og Kári eru með tíu stig og Augnablik er með ellefu stig. KFG er í efsta sæti deildarinnar með 18 stig og þar á eftir kemur Víðir með 16 og Dalvík/Reynir með 15.

Næsti leikur Kormáks Hvatar verður gegn toppliðinu KFG laugardaginn 2. júlí klukkan 14 á Samsungvellinum í Garðabæ.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga