Fréttir | 03. júlí 2022 - kl. 08:22
Jafntefli í Garðabæ

Kormákur Hvöt heimsótti Knattspyrnufélag Garðabæjar í gær þegar leikið var í 9. umferð á Íslandsmótinu í knattspyrnu karla 3. deild. Fyrir leikinn var KFG í efsta sæti deildarinnar og því mátti búast við erfiðum leik fyrir gestina sem sátu í þriðja neðsta sæti. Leikmenn Kormáks Hvatar mættu vel stemmdir til leiks og uppskáru mark á 12. mínútu og var þar að verki Aliu Djalo. Staðan 0-1 í hálfleik.

Á upphafsmínútum seinni hálfleiks náðu heimamenn að jafna leikinn og allt var stál í stál eftir það. Hvorugt liðið náði að setja mark og knýja fram sigur og lokatölur því 1-1.

Kormákur Hvöt lyftist upp um eitt sæti með jafnteflinu, situr nú í fjórða neðsta sæti með 10 stig. KFG missti toppsætið til Víðis en liðin eru bæði með 19 stig.

Næsti leikur Kormáks Hvatar er gegn Augnablik sem er í 7. sæti deildarinnar með 11 stig. Leikurinn fer fram á Blönduósvelli á þriðjudaginn og hefst klukkan 19:15.   

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga