Fréttir | 23. september 2022 - kl. 10:05
Síðustu dagarnir í laxveiðinni

Helstu laxveiðiár landsins loka á næstu dögum og fer þá að skýrast hvernig til hefur tekist í laxveiðinni í sumar. Miðfjarðará lokar á sunnudaginn en hún er aflamest húnvetnsku laxveiðiánna með 1.474 laxa samkvæmt tölum frá 21. september síðastliðnum. Í fyrra endaði áin í 1.796 löxum þannig að útséð er með að þær tölur verði toppaðar í ár. Miðfjarðará er komin í þriðja sætið á lista yfir aflamestu laxveiðiár landsins.

Árnar Ytri Rangá og Hólsá eru í efsta sæti listans með 4.442 veidda laxa sem er um 30% meiri veiði en í fyrra. Í öðru sæti er Eystri-Rangá með 3.412 laxa sem er 4% meira en í fyrra.

Lokatölur fyrir Laxá á Ásum bárust í síðustu viku og endaði áin í 820 löxum sem er 220 löxum meira en í fyrra. Víðidalsá er komin í 746 laxa sem er níu löxum meira en í fyrra. Blanda stendur í 577 löxum sem er sama tala síðustu þrjár vikurnar. Vatnsdalsá er komin í 387 laxa en í fyrra veiddust 427 laxar úr ánni. Veiðst hafa 220 laxar í Hrútafjarðará sem er 151 laxi færra en í fyrra og 169 laxar hafa veiðst í Svartá sem er 32 löxum færra en í fyrra.

Laxveiðitölur úr helstu laxveiðiám landsins má sjá á www.angling.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga