Fréttir | 28. september 2022 - kl. 21:35
Jákvæðni í garð ferðaþjónustunnar

Íbúar Húnaþings vestra eru almennt jákvæðir út í ferðaþjónustu á svæðinu, ef marka má niðurstöður íbúakönnunar sem Selasetrið stóð fyrir í sumar. Þátttakendur í könnuninni finnst ferðaþjónustan hafa bætt lífsgæði og skynja Húnaþing vestra sem góðan ferðamannastað. Meira en helmingur telur að ávinningur af ferðaþjónustunni sé meiri en kostnaður vegna hennar.

Þá gera íbúar sér grein fyrir ýmsum jákvæðum áhrifum ferðaþjónustunnar fyrir sveitarfélagið, sérstaklega þeirri sem veitir atvinnu og ferðaþjónustan eykur stolt íbúa. Ef niðurstöður könnunarinnar eru bornar saman við fyrri rannsókn kemur í ljós að jákvæðni í garð ferðaþjónustunnar fer dvínandi, að því er fram kemur í ráðgjafaskýrslu sem unnin er úr íbúakönnunni.

Selasetur Íslands stóð fyrir könnuninni í sumar og var tilgangurinn að kynna sér álit samfélagsins á ferðaþjónustunni og hvernig hún eigi að þróast á komandi árum. Sarah Walter, sumarnemi hjá Selasetrinu, gerði könnunina undir handleiðslu Dr. Jessicu Aquino. Ráðgjafaskýrsluna má lesa hér en hún er á ensku.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga