Á rjúpnaslóð
Á rjúpnaslóð
Fréttir | 01. nóvember 2022 - kl. 09:17
Rjúpnaveiðitímabilið hefst á hádegi

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfisráðherra hefst rjúpnaveiðitímabilið í dag, 1. nóvember. Leyfilegt verður að veiða rjúpu frá 1. nóvember til og með 4. desember. Veiði er heimili frá og með föstudegi til og með þriðjudags, frá klukkan 12 og skal veiði eingöngu standa yfir á meðan að birtu nýtur. Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra.

Ráðlögð veiði úr stofninum á þessu ári er um 26 þúsund fuglar. Biðlar ráðherra til veiðimanna að sýna hófsemi í veiðum í ljósi viðkomubrests á Norðausturlandi og Vesturlandi, en slæmt tíðarfar í vor og sumar er líklegasta skýringin á viðkomubrestinum. Þá hvetur ráðherra veiðimenn til þess að flykkjast ekki á Norðausturlandið til veiða og eru veiðimenn á því svæði hvattir sérstaklega til að sýna hófsemi. Ráðuneytið hvetur veiðimenn til að kynna sér takmarkanir á veiðum á friðlýstum svæðum og eru þeir hvattir til góðrar umgengni um náttúru landsins.

Veiðimenn eru hvattir til að búa sig rétt út til veiða, hvað fatnað og öryggisbúnað varðar, láta vita af ferðaáætlun sinni og kanna vel veðurspár.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga