Sorp
Sorp
Fréttir | 03. nóvember 2022 - kl. 11:39
Samstarf í úrgangsmálum álitlegur kostur

Í skýrslu sem verkfræðistofan Efla hefur tekið saman er bent á margt sé líkt í úrgangsstjórnun sveitarfélaga í Húnavatnssýslum og því gæti mögulegt samstarf og samhæfing verið álitlegur kostur. Í minnisblaði um næstu skref í áformuðu útboði úrgangsmála í Húnaþingi vestra og lagt var fram á byggðarráðsfundi á mánudaginn kemur fram að öll sveitarfélögin í Húnavatnssýslum eru að klára samningstímabil vegna sorphirðu eða reka málaflokkinn á framlengdum samningum og að fyrirhugað sé að standa að sameiginlegu útboði hvað úrgangsmál varðar á næstunni.

Við skoðun verkfræðistofunnar Eflu kom í ljós að margt sé líkt í úrgangsstjórnun sveitarfélaganna, en ýmsa þætti væri nauðsynlegt að ræða til þess að bæta þjónustu og flokkun á svæðinu. Með aukinni samræmingu sveitarfélaganna megi búast við hagræðingu í málaflokknum til lengri tíma og bættri þjónustu við íbúa svæðisins, eins og segir í fundargerð byggðarráðs Húnaþings vestra.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga