Fréttir | 03. nóvember 2022 - kl. 13:28
Háhraða 5G net komið á Hvammstanga

Nova hefur sett upp 5G sendi á Hvammstanga og býður því bæjarbúum upp á áður óþekktan nethraða á svæðinu, eins og segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Þar með bætist Hvammstangi í hóp þeirra 45 bæjarfélaga sem hafa aðgang að 5G, en Nova hefur undanfarin ár komið upp yfir 90 sendum í öllum landshlutum.

Í tilkynningunni segir: „Óhætt er að fullyrða að Nova hafi verið leiðandi í innleiðingu nýjustu tækni og er komið lengst í uppbyggingu 5G á Íslandi. Áætlanir gera ráð fyrir að árið 2024 verði sendarnir orðnir 200 og fjöldi bæjarfélaga með aðgengi að hraðasta neti í heimi orðin yfir 60. Innleiðing 5G í bæjarfélögunum hefur í för með sér umtalsvert meiri afköst og hraðara streymi fyrir einstaklinga og fyrirtæki á svæðinu, en 5G skilar að jafnaði 150-200 Mb/s hraða á sekúndu og fer reglulega upp fyrir 1.000 Mb/s.“

„Þetta þýðir að þeir íbúar sem eru með tæki sem styðja 5G, eru með eina hröðustu nettengingu sem möguleiki er á í dag, hvort sem er hér heima eða annarsstaðar í heiminum. Með þessu tryggjum við þ.a.l. mjög hratt streymi, styttri svartíma og niðurhal á ofsahraða en 5G hraði jafnast á við öflugustu ljósleiðaratengingar þar sem þú getur hlaðið niður allt að 2,3 GB á sekúndu og svartíminn er undir 10 millisekúndur. Við erum mjög ánægð með að geta boðið okkar viðskiptavinum á svæðinu upp sama hraða og tíðkast í æ fleiri bæjarfélögum, þar sem viðbrögðin við 5G innleiðingunni hafa verið hreint frábær," segir Benedikt Ragnarsson, framkvæmdastjóri fjarskipta Nova.

„5G Nova á eftir að eflast hratt á næstu mánuðum. Við erum þá þegar búin að koma upp sendum í öllum landshlutum og getum þar með boðið viðskiptavinum okkar upp á öflugt net, hvar sem er á landinu en með því að fjölga öflugum sendum er Nova að auka á öryggi landsmanna. Nova hefur lagt mikið í að fjárfesta í innviðum síðustu árin og það skilar sér í því að við getum stígið þessi mikilvægu skref og haldið áfram að vera algjörlega í fremstu röð þegar kemur að því að innleiða 5G hér á landi," segir Margrét Tryggvadóttir, skemmtana- og forstjóri Nova.

Nova er eitt öflugasta og stærsta fjarskiptafyrirtækið á Íslandi en farsíma- og netkerfi þess nær til 98% landsmanna. Frá stofnun Nova árið 2006 hefur vöxturinn verið mikill, en fyrirtækið á og rekur sína eigin virku innviði víðsvegar um landið. Hjá Nova starfa um 150 manns og eru starfsstöðvar á Akureyri, Selfossi og á höfuðborgarsvæðinu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga