Jenný Lind, Guðrún, Hallbjörg yngri og Hallbjörg eldri. Mynd: kirkjan.is
Jenný Lind, Guðrún, Hallbjörg yngri og Hallbjörg eldri. Mynd: kirkjan.is
Fréttir | 07. nóvember 2022 - kl. 15:18
Sungið í kirkjukórnum í tæp 70 ár

Guðrún Sigurðardóttir hefur sungið í kór Hólaneskirkju á Skagaströnd í tæp 70 ár, eða frá því að hún var 16 ára gömul. Það væri sjálfsagt ekki í frásögur færandi að fólk sýndi kirkjunni sinni trygglyndi ef ekki væri svo að bæði dóttir Guðrúnar, dótturdóttir og barnabarnabarn hennar syngja líka í kórnum. Sagt er frá þessu á kirkjan.is undir flokknum Fólkið í kirkjunni.

Guðrún hefur eins og áður segir sungið í kórnum í tæp sjötíu ár, Hallbjörg Jónsdóttir eldri í tuttugu og fimm ár, Jenný Lind Sigurjónsdóttir í sjö ár og Hallbjörg Jónsdóttir yngri byrjaði í haust.

Í kórnum eru 28 meðlimir sem eru tæp 6% bæjarbúa, en meðal þeirra eru nokkrir meðlimir sem hafa sungið í tugi ára. Hugrún Sif Hallgrímsdóttir organisti hefur stjórnað kórnum undanfarin 18 ár.

“Ég held að fáir kórar hafi fjóra ættliði innanborðs og þaðan af síður manneskju sem hefur sungið hátt í 70 ár og skilað margföldu ævistarfi af samfélagsþjónustu og gefur hinum yngri ekkert eftir. Svona fólk á auðvitað að fá fálkaorðu,”segir Hugrún Sif létt í bragði í viðtali við kirkjan.is en hún fékk meðal annars fimm ungar og kraftmiklar stelpur í kórinn í haust, sem hún er mjög þakklát fyrir.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga