Skagastrandarhöfn
Skagastrandarhöfn
Fréttir | 15. nóvember 2022 - kl. 15:32
Styður eflingu félagslega hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins

Sveitarfélagið Skagaströnd hefur sent inn umsögn við tillögu til þingsályktunar um eflingu félagslega hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins sem nokkrir þingmenn hafa lagt fram á Alþingi. Með tillögunni er lagt til að stækka þann hluta sem tekinn er af aflaheimildum hvers árs úr 5,3% í 8,3% af úthlutuðum aflaheimildum heildarafla. Í greinargerð með tillögunni segir að félagslegar veiðar séu mikilvæg byggðaráðstöfun, þær efli atvinnu og auki fjárfestingu á sviði sjávarútvegs.

Í umsögninni kemur fram að sveitarfélagið styður heilshugar hugmyndir um eflingu félagslegs hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins, sem hafi styrkt byggðafestu á Skagaströnd. „Á Skagaströnd hefur smábátaútgerð eflst á undanförnum árum. Í flestum tilfellum er um að ræða miðaldra karlmenn sem hafa stundað sjómennsku á togurum frá því að grunnskólagöngu lauk sem eru að reyna að skapa sér framfærslugrundvöll með strandveiðum, grásleppuveiðum, byggðakvóta og leigu aflaheimilda. Þessi þróun hefur skapað umtalsverða byggðafestu á Skagaströnd þar sem að öllum líkindum hefðu fjölskyldur þessara manna flutt frá Skagaströnd hefðu þessir möguleikar ekki verið til staðar. Á Skagaströnd fengu 25 bátar úthlutað byggðakvóta fiskveiðiárið 21/22 en fiskveiðiárið 03/04 voru einungis 4 bátar sem nutu þessara gæða,“ segir í umsögninni.

Sveitarfélagið telur að tillaga þingmannanna muni styrkja byggð á Skagaströnd enn frekar. „Áhrifaríkast yrði að beina auknum veiðiheimildum inn í strandveiðikerfið með það að markmiði að tryggja smábátasjómönnum rétt til að róa í 48 daga með öllum þeim takmörkunum sem það kerfi inniber.“ Sveitarfélagið telur aftur á móti að 3% aukning innan félagslega hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins, þ.e. úr 5,3% í 8,3% muni ekki hafa afgerandi áhrif á stöðu núverandi handhafa aflaheimilda.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga