Listaverk. Mynd: hofdaskoli.is
Listaverk. Mynd: hofdaskoli.is
Fréttir | 16. nóvember 2022 - kl. 14:34
Ungt og upprennandi listafólk í Höfðaskóla

Nemendur á unglingastigi í Höfðaskóla sem voru í myndmenntavali eyddu síðustu tímunum í listamiðstöðinni Nesi. Þar lærðu þeir að búa til sitt eigið „screen printing“ frá grunni og prófuðu að prenta á bæði pappír og boli, að því er segir á vef Höfðaskóla. Þar segir að verkefnið hafi verið mjög áhugavert og að krakkarnir hafi fengið að kynnast því hve mikil vinna og bras felist oft í gerð listaverka. Útkoman hafi verið allskonar og að þau hafi fagnað bæði því sem misheppnaðist og því sem lukkaðist.

„Nemendurnir hafa staðið sig vel í haust og verkefnin sem þau unnu voru meðal annars: verkefni tengd listasögu, úti teikningar, æfðu sig með Posca penna, horfðu á þátt um Ólaf Elíasson listamann, unnu öll saman að einu stóru halloween þema listaverki og sitthvað fleira. Það er greinilegt að skólinn okkar á ungt og upprennandi listafólk,“ segir á vef Höfðaskóla og þar má finna fjölda mynda frá vinnunni í Nesi listamiðstöð.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga