Fréttir | 17. nóvember 2022 - kl. 14:11
Enn fækkar sláturlömbum

Sláturlömbum heldur áfram að fækka hér á landi og samkvæmt nýjum sláturtölum sem birtar eru í Bændablaðinu nemur fækkunin milli ára um 20 þúsund lömbum. Hjá SAH afurðum fækkar sláturlömbum um 5.565 milli ára, heildarfjöldinn fer úr 73.875 í 68.310. Er þetta næst mesta fækkun hjá sláturhúsi á landinu en mest fækkaði hjá Sláturfélagi Suðurlands eða um tæplega 6 þúsund lömb.

Í frétt Bændablaðsins segir að fækkun sláturlamba hafi verið samfelld frá árinu 2017. Hins vegar hafi slátrun á fullorðnum ám verið mjög sambærileg við síðasta ár, sem þyki benda til þess að áframhald verði í fækkun sláturgripa haustið 2023. Í blaðinu kemur einnig fram meðalvigt dilka en hún var 16,64 kíló í nýafstaðinni sláturtíð hjá SAH afurðum en var í fyrra 17,76 kíló. Meðalvigt dilka á landinu öllu var 16,60 í haust en í fyrra var hún 17,40.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga