Mynd: FB/Karólína
Mynd: FB/Karólína
Fréttir | 18. nóvember 2022 - kl. 09:54
Nýtt Hvammshlíðardagatal komið út

Karólína Elísabetardóttir í Hvammshlíð í Skagabyggð hefur gefið út dagatal fyrir 2023. Þetta er fimmta dagatalaútgáfa Karólínu og sem fyrr inniheldur dagatalið fróðleik sem snýst í kringum búskapinn í Hvammshlíð og sveitalífið fyrr og nú. Hún vakti athygli árið 2018 þegar hún hóf sölu á dagatölum til að fjármagna kaup á dráttarvél fyrir búskapinn.

Fræðsluefnið í dagatalinu 2023 tengist meðal annars riðurannsókninni sem Karólína hefur verið í fararbroddi í leit að lausnum við að rækta upp riðuþolinn sauðfjárstofn á Íslandi. Í dagatalinu má líka sjá gamlar myndir af hundum og sérstaklega smalahundum, litaheiti á hrossum, kúm og kindum, gömul fjárhús og gamlar kindamyndir frá Laugabóli við Ísafjarðardjúp.

Gömlu mánuðirnir, merkisdagar, vetrar- og sumarvikur koma fram á mánaðarsíðunum sjálfum, ásamt upplýsingum um tunglið. „Viðaukinn“, sem er í svarthvítu, hefur verið uppfærður og inniheldur enn fleiri upplýsingar um gamla norræna tímatalið, íslenska merkisdaga og gamlar íslenskar mælieiningar.

Dagatalið er í stóru broti á 28 blaðsíðum. Það er til sölu á ýmsum stöðum á Norðurlandi vestra, í Borgarnesi og á Selfossi, en einnig er hægt að panta beint hjá Karólínu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga