Fréttir | 19. nóvember 2022 - kl. 08:48
Hrútafundir framundan

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og búnaðarsamböndin halda sameiginlega „hrútafundi“ á næstu vikum en þeir hafa ekki verið haldnir síðastliðin tvö ár vegna farsóttarinnar. Markmið fundanna er að kynna hrútakost sæðingastöðvanna og ræða um ræktunarstarfið. Fyrstu fundirnir hefjast 21. nóvember og verða þrír fundir haldnir á svæði Búnaðarsambands Húnaþings og Standa.

Í hrútaskránni eru kynntir 23 nýir hrútar en í heildina stendur flotinn af 47 hrútum á sæðingastöðvunum í Þorleifskoti og Borgarnesi. Í henni er einnig að finna fræðsluefni, meðal annars grein um erfðagallann bógkreppu.

Fundir á svæði Búnaðarsambands Húnaþings og Stranda:

  • Á Ströndum - Laugardaginn 26. nóvember í Sævangi klukkan 14.
  • Í Miðfirði – Þriðjudaginn 29. nóvember í Ásbyrgi klukkan 14.
  • Á Blönduósi - Þriðjudaginn 29. nóvember í sal BSH Húnabraut 13 klukkan 20.

Nánari upplýsingar er að finna á vef RML.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga