Fréttir | 10. janúar 2023 - kl. 18:00
Mótmælir harðlega litlum byggðakvóta

Sveitarstjórn Húnabyggðar mótmælir því harðlega að ekki sé úthlutaður meiri byggðakvóti til sveitarfélagsins fyrir fiskveiðiárið 2022/2023 en þau 15 þorskígildistonn sem úthlutað var nýverið. Byggðakvótinn sé svo lítill að af því sé skömm enda dugi hann ekki til að sjá einum sjómanni fyrir atvinnu og því sé vandséð hvernig úthlutunin styrki atvinnulíf í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn segir það óásættanlegt að kvótinn sé ekki í samræmi við þá úthlutun sem nágrannasveitarfélögin fá og skorar á matvælaráðuneytið að leiðrétta þennan mismun samstundis.

Byggðakvótinn var til umræðu á sveitarstjórnarfundi Húnabyggðar í dag og þar var eftirfarandi bókun lögð fram:

Sveitarstjórn Húnabyggðar mótmælir því harðlega að ekki séu veittar auknar veiðiheimildir til sveitarfélagsins. Atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu og á Norðurlandi vestra standa höllum fæti og þessi landshluti á undir högg að sækja. Við fögnum hækkun á byggðakvóta til nágrannasveitarfélaganna en það skýtur skökku við að ekki sé brugðist við á sama hátt hér í Húnabyggð eins og gert er í nágrannasveitarfélögunum Húnaþingi vestra sem fékk tæplega 90% hækkun (úr 70 í 130 tonn) og Skagaströnd sem fékk ríflega 10% hækkun (úr 154 í 170 tonn). Þetta er í alla staði óásættanlegt sérstaklega í ljósi þess hversu lítill byggðarkvótinn er í sveitarfélaginu eða 15 tonn. Byggðarkvótinn er reyndar svo lítill að af því er skömm og dugir þetta ekki til að sjá einum sjómanni fyrir atvinnu og því vandséð hvernig þessi úthlutun styrkir atvinnulíf í sveitarfélaginu. Húnabyggð skorar á Matvælaráðuneytið að leiðrétta þennan mismun milli sveitarfélaganna samstundis.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga