Fréttir | 09. júlí 2006 - kl. 11:14
Hafíssetrið á Blönduósi formlega opnað

Þann 5. júlí sl. var Hafíssetur á Blönduósi formlega opnað.  Á hafíssetrinu verða gerðar veðurathuganir í sumar og gerði Grímur Gíslason fyrstu veðurathugunina og naut við það aðstoðar Magnúsar Þorsteinssonar ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneyti. Að því loknu var setrið formlega opnað af Magnúsi og naut hann aðstoðar Einars Kr. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra við það. Þórhallur Barðason og Jón Sverrisson fluttu lag sem Jón samdi við ljóð Matthíasar Jochumssonar ,,Hafísinn”. Ekki er vitað til að annað lag sé til við þetta ljóð.

 

Margir lögðu leið sína á Blönduós til að vera við opnunina enda léku veðurguðirnir við gesti, hitinn var 14,2°c, skyggni 30 km og logn samkvæmt veðurathugun þeirra Gríms og Magnúsar. Þóranna Pálsdóttir tók til máls og þakkaði Blönduósbæ fyri framtakið. Dr. Þór Jakobsson veðurfræðingur er helsti hvatamaður setursins og þakkaði Jóna Fanney Friðriksdóttir bæjarstjóri honum fyrir störf hans og veðurstofunni fyrir þeirra þátt við að gera setrið að veruleika. Hafíssetrið á Blönduósi verður opið alla daga frá kl 10:00-17:00. Anna Margret Valgeirsdóttir er forstöðumaður setursins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga