Fréttir | 16. janúar 2023 - kl. 12:08
Rokkkórinn heldur tónleika í Iðnó

Rokkkórinn í Húnaþingi vestra, sem er blandaður kór Húnvetninga á öllum aldri, ætlar að skella sér í höfuðborgina laugardaginn 21. janúar næstkomandi og halda tónleika í Iðnó sem hefjast klukkan 20. Undirspil verður í höndum fimm manna hljómsveitar og lagavalið er að mestu frá 7. og 8 áratugnum. Kórstjóri er Ingibjörg Jónsdóttir.

Í tilkynningu frá kórnum segir:

„Þar sem viðbrögð áhorfenda við tónleikum okkar í Félagsheimilinu Hvammstanga voru vonum framar ætlum við að skella okkur í höfuðborgina og halda tónleika þar í Iðnó, þann 21. janúar næstkomandi. Við lofum jafngóðum ef ekki betri tónleikum og vonumst til að sjá sem flesta vini, ættingja sem og brottflutta Húnvetninga.“

Hægt er að kaupa miða á www.adgangsmidi.is. Miðaverð er 4.000 krónur.

Rokkkórinn kemur úr Húnaþingi vestra og hóf æfingar af alvöru í byrjun árs 2022. Var hann stofnaður árið 2019 en komst þó ekki almennilega af stað fyrr en tveimur árum seinna vegna Covid. Afrakstur æfinga mátti heyra á tónleikum 19. nóvember síðastliðinn á Hvammstanga. Vöktu þeir mikla lukku og var því ákveðið að halda suður til höfuðborgarinnar með tónleikana.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga