Verðlaunahafar í keppninni. Mynd: klebergsskoli.is
Verðlaunahafar í keppninni. Mynd: klebergsskoli.is
Fréttir | 25. janúar 2023 - kl. 12:09
Unglingar frá Orion sigruðu í hönnunarkeppni

Félagsmiðstöðin Orion á Hvammstanga sendi tvö lið á Stíl, sem er árleg hönnunarkeppni milli félagsmiðstöðva. Keppt er í hárgreiðslu, förðun og fatahönnun út frá ákveðnu þema sem er ákveðið af ungmennaráði Samfés. Þemað í ár var gylltur glamúr. Hönnunarkeppnin fór fram í Kópavogi síðastliðinn laugardag og tóku 36 félagsmiðstöðvar þátt. Liðin frá Orion stóðu sig með prýði og hreppti annað þeirra fyrsta sætið.

Markmið Stíls er að hvetja unglinga til listsköpunar og um leið gefa þeim aukin tækifæri til frumlegrar hugsunar og virkja sköpunarhæfileikana. Keppnin vekur jákvæða athygli á því hvað unglingar eru að gera á sviði sköpunar, gefur þeim kost á að koma hugmyndum sínum á framfæri og sýna afrakstur margra mánaða undirbúningsvinnu hópsins. 

Fyrirkomulag keppninnar er með þeim hætti að hóparnir, skipaðir 2-4 unglingum fá tvær klukkustundir til þess að undirbúa módelið sitt fyrir sýninguna. Hóparnir skila einnig hönnunarmöppu, sem útskýrir hugmyndina á bak við hönnunina, með teikningum, efnisprufum, kostnaðarupplýsingum og ljósmyndum af flík, hári og förðun.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga