Auðunn S. Sigurðsson afhenti Bryndísi viðurkenningarskjöld frá Húnahorninu á Blöndublóti í kvöld. Mynd: Grímur Lárusson
Auðunn S. Sigurðsson afhenti Bryndísi viðurkenningarskjöld frá Húnahorninu á Blöndublóti í kvöld. Mynd: Grímur Lárusson
Fréttir | 28. janúar 2023 - kl. 18:10
Bryndís Bragadóttir er maður ársins 2022 í Austur-Húnavatnssýslu

Lesendur Húnahornsins hafa valið Bryndísi Bragadóttur sem mann ársins í Austur-Húnavatnssýslu árið 2022. Bryndís er hárgreiðslukona á Blönduósi og hefur hún klippt og snyrt hár Blönduósinga og nærsveitunga í tæp 40 ár. Bryndís opnaði hárgreiðslustofu á Blönduósi árið 1987 en lét staðar numið nú um áramótin. Þórdís Erla Björnsdóttir, sem var hárgreiðslunemi hjá Bryndísi, tók við rekstrinum. Tilkynnt var um niðurstöðuna í valinu á Blöndublóti sem fram fór í Félagsheimilinu á Blönduósi í kvöld.

Í innsendri tilnefningu um Bryndísi segir m.a.: „Bryndís hefur staðið klippivaktina á Blönduósi í nánast 40 ár, hún er ósérhlífin og dugleg og ekki sjálfgefið í dag að fólk endist svona lengi í þessum bransa. Hún er alltaf tilbúin til að bjarga eða redda málunum þegar upp koma „neyðartilvik“ fyrir stórviðburði. Bryndís hugsar einnig vel um eldra fólkið okkar og fer upp á sjúkrahús og klippir og snyrtir vistfólk þar sem á ekki heimangengt.“

Allir sem sendu inn tilnefningu er þökkuð þátttakan sem var með ágætum. Fjölmargir fengu verðskuldaða tilnefningu en langflestar féllu þær Bryndísi í skaut.

Þetta er í 18. sinn sem lesendur Húnahornsins velja mann ársins í Austur-Húnavatnssýslu.

Menn ársins síðustu ár eru þessir:
2022: Bryndís Bragadóttir
2021: Karólína Elísabetardóttir
2020: Valdimar Guðmannsson
2019: Björgunarsveitarfólk úr Björgunarfélagið Blöndu
2018: Guðjón Ragnarsson og hundurinn Tinni
2017: Eyþór Franzson Wechner
2016: Skarphéðinn Húnfjörð Einarsson
2015: Róbert Daníel Jónsson
2014: Brynhildur Erla Jakobsdóttir
2013: Elín Ósk Gísladóttir
2012: Kári Kárason og Pétur Arnar Kárason
2011: Einar Óli Fossdal
2010: Bóthildur Halldórsdóttir
2009: Bóthildur Halldórsdóttir
2008: Lárus Ægir Guðmundsson
2007: Rúnar Þór Njálsson
2006: Lárus B. Jónsson
2005: Lárus B. Jónsson

Húnahornið óskar Bryndísi til hamingju með útnefninguna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga