Fréttir | 30. janúar 2023 - kl. 13:42
Skýrsla um stöðu og samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar á Norðurlandi vestra

Fyrsta hluta í stefnumótunarvinnu fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi vestra lauk um áramótin en hún hófst síðastliðið haust. Gerð var stöðu- og samkeppnisgreining á ferðaþjónustunni á svæðinu og var hún unnin af Hirti Smárasyni frá ráðgjafafyrirtækinu Saltworks að beiðni Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Í nýútkominni skýrslu Hjartar er helst tæpt á því sem í boði er í ferðaþjónustu á svæðinu, hversu mikilli umferð það geti annað, hvað fólki finnst helst vanta og út frá þessu öllu hvar tækifærin gætu legið.

Á vef SSNV kemur fram að í öðrum hluta verkefnisins, sem nú er í gangi, sé svo unnið úr niðurstöðum rýniviðtala og vinnustofu, sem fram fór í nóvember á síðasta ári. Niðurstaðan komi til með að móta svokallaðan „Brandfilter“, sem mun verða ákveðið leiðarstef inn í framtíðarvinnu þegar kemur að ímynd og orðspori svæðisins.

Lokahluti verkefnisins þar sem heildar stefnumótunin kemur saman í lokaskýrslu, verður kynnt í vor og út frá henni stigin frekari skref í vöruþróun og nýsköpun. Ákveðin hluti þessarar vinnu mun svo einnig nýtast í þeirri vegferð að kynna landshlutann almennt, að því er segir á vef SSNV.

Í skýrslu Hjartar segir m.a. „Norðurland vestra er öðruvísi áfangastaður [en Norðurland eystra] með öðruvísi upplifanir. Upplifanir sem bjóða frekar upp á hægláta ferðamennsku, lengri dvalar og dýpri tengingar við menningu, sögu og samfélag. Hér er tækifærið fyrir Norðurland vestra, og gæti svæðið sett það sem markmið að vera með flestar gistinætur per ferðamann af öllum landshlutum, þó að þar verði jafnvel enn fæstir ferðamenn.

Stöðugreininguna má finna HÉR

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga