Fréttir | 06. febrúar 2023 - kl. 12:06
Lögreglan rannsakar upptök elds í svínabúi

Aðgerðum Brunavarna Austur-Húnvetninga í Skriðulandi í Langadal er lokið en eldur kom þar upp í svínabúi í morgun. Ekki er vitað hvað mörg svín drápust í brunanum þar sem ekki hefur verið farið inn í þann hluta hússins sem eldurinn kom upp í. Haft var eftir Ingvari Sigurðssyni slökkviliðsstjóra á mbl.is í morgun að þar gætu 200 eða fleiri legið í valnum. Eldsupptök eru ókunn en talið er að vélbúnaður hafi átt hlut að máli. Lögreglan rannsakar nú málið.

Á vef Ríkisútvarpsins kemur fram að um 20 slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Austur-Húnvetninga hafi verið fengnir á staðinn og auk þess hafi borist aðstoð frá Brunavörnum Skagafjarðar þar sem körfubíll og tankbíll voru fengnir að láni. Upp úr klukkan átta í morgun hafði tekist að ná fullum tökum á eldinum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga