Hvammstangi. Mynd: Róbert Daníel Jónsson
Hvammstangi. Mynd: Róbert Daníel Jónsson
Fréttir | 07. febrúar 2023 - kl. 09:47
Félag eldri borgara sér um framkvæmd hátíðarhalda á sumardaginn fyrsta

Húnaþing vestra hefur samið við Félag eldri borgara í sveitarfélaginu um að taka að sér framkvæmd hátíðarhalda á sumardaginn fyrsta. Frá árinu 1957 hafa hátíðarhöld þennan dag skipað stóran sess í menningarlífi sveitarfélagsins og hefur Ingibjörg Pálsdóttir staðið að framkvæmd hátíðarinnar ásamt fjölskyldu sinni og ýmsum félagasamtökum. Í fyrra var 65. árið sem hátíðin var haldin og tilkynnti Ingibjörg þá að það væri í síðasta skiptið sem hún stæði fyrir henni.

Fjallað er um þetta í fundargerð byggðarráðs Húnaþings vestra frá því í gær. Þar segir að þar sem hátíðarhöldin hafi verið mikilvægur þáttur í samfélaginu muni sveitarfélagið leggja sitt af mörkum til að svo megi verða áfram. Samið hafi verið við Félag eldri borgara í Húnaþingi vestra um að taka að sér framkvæmd hátíðarinnar í ár ásamt því að sauma nýja búninga sem koma eiga í stað þeirra sem voru orðnir lúnir eftir 65 ára notkun, og eru nú komnir til varðveislu Verslunarminjasafnsins á Hvammstanga.

Byggðarráð færir Ingibjörgu Pálsdóttur bestu þakkir fyrir ómetanlegt starf sitt við hátíðarhöld á sumardaginn fyrsta í gegnum áratugina auk þeirra fjölmörgu sem að þeim hafa komið.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga