Húnaskóli
Húnaskóli
Fréttir | 15. mars 2023 - kl. 15:48
Ný rekstrareining stofnuð hjá Húnabyggð

Sveitarstjórn Húnabyggðar hefur ákveðið að skólaárið 2023-2024 taki til starfa ný rekstrareining hjá sveitarfélaginu sem hafi umsjón með mötuneytisþjónustu í öllum starfsstöðvum grunn- og leikskóla í Húnabyggð. Auglýsa á eftir starfsfólki til að stjórna og reka mötuneytið frá og með ágúst næstkomandi. Ákvörðunin byggir á undangenginni valkostagreiningu sem unni var af skrifstofu sveitarfélagsins.

Þetta kemur fram í fundargerð sveitarstjórnar frá því í gær. Þar kemur einnig fram að til skoðunar voru nokkrir valkostir en valið stóð helst á milli þess að fara í hefðbundið útboð og að stofna mötuneyti á vegum sveitarfélagsins. Ákvörðun sveitarstjórnar byggir á því að þar sem sveitarfélagið hafi á síðustu árum lagt í umtalsverðar fjárfestingar á mötuneytisaðstöðu í nýbyggingu við grunnskólann sé eðlilegt að nýta þá aðstöðu og byggja upp mötuneytisaðstöðu innan veggja grunnskólans.

Sveitarstjórn vill taka fram að í rekstri nýrrar einingar verði lögð rík áhersla á gæðastjórnun, jafnfram skuli nýta úrvalshráefni úr héraði eins og kostur er og lýðheilsu og umhverfissjónarmið höfð að leiðarljósi í hvívetna. Rekstrareiningin mun heyra beint undir sveitarstjóra, en verða í nánu samstarfi við stjórnendur leik- og grunnskóla. Sveitarstjóra var jafnframt falið að skoða mannaflaþörf fyrir eininguna og eftir hætti auglýsa ný störf.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga