Frá undirritun lánasamnings. Mynd: landsnet.is
Frá undirritun lánasamnings. Mynd: landsnet.is
Fréttir | 15. mars 2023 - kl. 16:27
Evrópski fjárfestingarbankinn fjármagnar uppbyggingu nýrrar kynslóðar byggðalínu

Evrópski fjárfestingarbankinn ætlar að lána Landsneti 63,7 milljónir Bandaríkjadala, jafngildi 9 milljarða króna, til uppbyggingar nýrrar kynslóðar byggðalínu. Landsnet mun þannig nota fjármögnunina til að styrkja flutningskerfi raforku til að mæta vaxandi eftirspurn og stuðla að orkuskiptum, eins og segir í tilkynningu á vef fyrirtækisins.

Þar kemur fram að orkunýting á Íslandi byggir í langmestu máli á endurnýjanlegri orku. „Endurnýjun byggðalínunnar leggur grunn að auknu afhendingaröryggi og stuðlar að orkuskiptum á Íslandi. Verkefnið er í samræmi við áherslur Evrópska fjárfestingarbankans í lánamálum hvað varðar stuðning við aukna nýtingu endurnýjanlegrar orku í Evrópu,“ segir í tilkynningunni.

Tæplega 40 ár eru liðin frá því landið var hringtengt með síðasta áfanga byggðalínunnar svonefndu. Nú þegar hafa tvær línur verið teknar í rekstur í nýrri kynslóð byggðalínunnar, Kröflulína 3 og Hólasandslína 3.

Í vikunni hélt Landsnet tvo opna fundi í Húnavatnssýslum um lagningu Holtavörðuheiðarlínu 3, sem er mikilvægur hlekkur í endurnýjun á núverandi byggðalínu. Línan verður 220 kV raflína og þar með hluti af nýrri kynslóð byggðalínu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga