Skjáskot úr Ríkissjónvarpinu í gær.
Skjáskot úr Ríkissjónvarpinu í gær.
Fréttir | 30. mars 2023 - kl. 09:58
"Pínulítið öfugsnúið að það sé verið að gera þetta í svona litlum bútum"

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, segir það vissulega gott að fá sjö kílómetra langan vegakafla á Vatnsnesvegi endurbættan en þá séu 60 kílómetrar eftir. Húnahornið sagði frá því í fréttum nýverið að Vegagerðin hefði boðið út endurbyggingu á vegarkaflanum, sem er á leiðinni frá Hvammstanga og út á Vatnsnes. Ríkissjónvarpið fjallaði um máli í gær og ræddi við Unni.

Segir hún að búið sé að bíða eftir þessu útboði í á annað ár og það sýni best hve undirbúningur að vegagerð taki langan tíma. „Þess vegna er það pínulítið öfugsnúið að það sé verið að gera þetta í svona litlum bútum í hvert sinn,“ segir Unnur í viðtalinu.

Vondir vegir á Vatnsnesi hafa áhrif um allt samfélagið og er ástandið mjög erfitt fyrir grunnskólabörn í skólaakstri. Holóttum vegum fylgir slysahætta og kostnaður við slit á bílum og dekkjum. Vatnsnesvegur er loksins kominn á samgönguáætlun en þó ekki fyrr en á síðasta tímabili hennar, sem er eftir sjö til ellefu ár. „Það er baráttumál, og hefur verið og verður áfram, að hnika því framar. Þannig að það verði hægt að ráðast í úrbætur á veginum mun fyrr,“ segir Unnur.

Íbúar og sveitarstjórnarfólk í Húnaþingi vestra hafa árum saman barist fyrir nýjum vegi fyrir Vatnsnes enda vegurinn fyrir löngu úr sér genginn.

Sjá umfjöllun Ríkissjónvarpsins hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga