Frá Blönduósi. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Frá Blönduósi. Ljósm: Róbert Daníel Jónsson
Fréttir | 31. mars 2023 - kl. 13:04
Ert þú með hugmynd að viðburði í sumar?

Húnabyggð leitar til íbúa sveitarfélagsins um hugmyndir að viðburðum í sumar. Í auglýsingu á vef Húnabyggðar kemur fram að á döfinni hjá sveitarfélaginu í sumar er meðal annars 17. júní hátíðarhöld og bæjarhátíðin Húnavaka, sem haldin verður dagana 13.-16. júlí. Það að auki verða haldnir tveir stórir viðburðir, Prjónagleðin og Smábæjarleikarnir og stefnt er að því að halda Brúarhátíð í vor.

„Ef þið eruð með hugmyndir að viðburðum eða viljið halda viðburð í Húnabyggð í sumar, hvort sem er á 17. júní, Húnavöku eða á öðrum tíma, ekki hika við að hafa samband og við getum unnið þetta saman,“ segir á vef Húnabyggðar.

Í auglýsingunni er einnig óskað eftir einstaklingum eða félagasamtökum til að taka að sér kaffisölu, matsölu og sölu á ýmsum varningi á 17. júní og Húnavöku.

Þau sem hafa áhuga eða eru með hugmyndir og spurningar geta haft samband við Kristínu Ingibjörgu, menningar-, íþrótta- og tómstundafulltrúa Húnabyggðar í síma 455-4700 eða senda tölvupóst á netfangið kristin@hunabyggd.is fyrir 15. apríl 2023.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga