Elín og Jóhannes hlutu Landstólpann 2023. Mynd: Hjalti Árnason
Elín og Jóhannes hlutu Landstólpann 2023. Mynd: Hjalti Árnason
Fréttir | 01. maí 2023 - kl. 11:42
Elín og Jóhannes hlutu Landstólpann 2023
Gefa eina milljón í orgelsjóð Blönduóskirkju

Hjónin Elín S. Sigurðardóttir og Jóhannes Torfason á Torfalæk eru handhafar Landstólpans, samfélagsviðurkenningar Byggðastofnunar, sem afhentur var í tólfta sinn á ársfundi stofnunarinnar á Húsavík síðastliðinn fimmtudag. Hugmyndin að baki Landstólpanum er að efla skapandi hugsun og bjartsýni og er því hugsaður sem nokkurs konar hvatningar- og bjartsýnisverðlaun. Í ár bárust sautján tilnefningar og var niðurstaða dómnefndar að veita Elínu og Jóhannesi Landstólpann árið 2023.

Á vef Byggðastofnunar segir að Elín og Jóhannes hafi haft gríðarlega jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt með leiðtogahæfileikum sínum, sneitt hjá átökum og laðað aðra íbúa með sér til að byggja upp samfélagið í gegnum Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi og Ámundakinn ehf., sannkallaðir burðarásar í sínu samfélagi. Viðurkenningargripurinn í ár, sem afhentur var af Helgu Harðardóttur, sérfræðingi á þróunarsviði, og Andra Þór Árnasyni sérfræðingi á lánasviði, var í formi ljósmyndaverks eftir Gyðu Henningsdóttur.

Í samtali við Húnahornið segjast Elín og Jóhannes innilega þakklát og stolt af viðurkenningunni og að hún hafi svo sannarlega komið þeim á óvart. Við móttöku hennar hafi þau tilkynnt að peningar, ein milljón króna, sem fylgja viðurkenningunni verði látnir renna til orgelsjóðs Blönduóskirkju. Þetta var tilkynnt á afmælishátíð Blönduóskirkju í gær. Með fjárframlaginu vilja þau þakka mikilvægt hlutverk kirkjunnar í samfélaginu og minnast 30 ára vígsluafmælis hennar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga