Fréttir | 04. maí 2023 - kl. 13:56
Kormáki Hvöt spáð 9. sæti í 3. deild í sumar

Íslandsmót KSÍ í 3. deild karla hefst í kvöld með leik Víðis og Hvíta riddarans á Nesfiskvellinum í Garði. Kormákur Hvöt leikur sinn fyrsta leik á mótinu á laugardaginn gegn Íþróttafélagi Hafnarfjarðar og fer leikurinn fram í Skessunni í Hafnarfirði klukkan 14. Þjálfarar í deildinni hafa spáð í spilin fyrir sumarið og samkvæmt niðurstöðu þeirra mun Kormákur Hvöt enda í 9. sæti með 44 stig. Það er sama sæti og liðið endaði í á mótinu í fyrra.

Spá þjálfaranna er birt á vefmiðlinum fotbolti.net og þar segir:

Kormákur/Hvöt lenti í fallbaráttu á síðustu leiktíð og var liðið aðeins þremur stigum frá fallsvæðinu þegar tvær umferðir voru eftir. En liðið náði í einn sigur í síðustu tveimur umferðunum og tókst að bjarga sér frá falli. Hilmar Þór Kárason var markahæsti leikmaður liðsins en hann er búinn að fá félagaskipti yfir í Sindra í 2. deild. Spurning er hvernig áhrif það mun hafa á liðið en það eru komnir inn sterkir erlendir leikmenn sem ættu að geta hjálpað. Aco Pandurevic mun halda áfram þjálfun liðsins. Hann stefnir eflaust á að byggja á árangrinum frá síðasta tímabili og gera enn betur.
Lykilmenn: Goran Potkozarac, Ismael Moussa Yann Trevor og Uros Duric.
Gaman að fylgjast með: Lazar Cordasic er öflugur miðjumaður sem gæti heillað marga á vellinum í sumar.
Þjálfarinn segir - Aco Pandurevic
„Mín skoðun er sú að deildin sé aðeins auðveldari en á síðasta tímabili því við fengum þrjú lið upp úr 4. deild. Það er erfitt að spá en kannski geta spár haft góð áhrif á liðin sem er ekki spá svo góðu gengi. Kormákur/Hvöt er með góða leikmenn, en við erum svolítið eftir á í samanburði við hin liðin vegna þess að æfingaaðstæður eru ekki góðar og við erum enn að safna liðinu en á heildina litið er ég mjög spenntur að við séum að byrja tímabilið."

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga