Fréttir | 15. maí 2023 - kl. 11:47
Umhverfis- og tiltektardagur í Húnabyggð

Húnabyggð efnir til umhverfis- og tiltektardags á fimmtudaginn. Íbúar og forsvarsmenn fyrirtækja eru hvattir til að fara yfir sitt nánasta umhverfi og hreinsa til fyrir sumarið. Þá eru íbúar hvattir til að taka þátt í plokki og er mæting við Félagsheimilið á Blönduósi klukkan 13. Starfsfólk þjónustumiðstöðvar Húnabyggðar skipuleggur svæðin sem plokka á og verða tínur og pokar á staðnum. Sveitarstjórn býður svo til grillveislu við félagsheimilið að plokki loknu.

Gámasvæði Terra á Blönduósi verður opið klukkan 11-13. Þar verður hægt að nálgast ruslapoka og aðstoð verður á staðnum.

Ef íbúar hafa ekki tök á að losa sig við stóra hluti eins og bílhræ er hægt að hafa samband við þjónustumiðstöð Húnabyggðar til að fá aðstoð á netfangið ahaldahus@hunabyggd.is fyrir fimmtudaginn 18. maí.

Umhverfis- og tiltektardagur í dreifbýli Húnabyggðar verður haldinn í júní og auglýstur síðar.

Sjá nánar á www.hunabyggd.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga