Fréttir | 15. maí 2023 - kl. 13:33
Taprekstur hjá Húnaþingi vestra í fyrra

Húnaþing vestra var rekið með 86 milljón króna halla á síðasta ári. Í fjárhagsáætlun ársins með viðaukum var gert ráð fyrir 127 milljón króna neikvæðri rekstrarniðurstöðu og er afkoman því nokkuð betri en gert var ráð fyrir. Rekstrartekjur sveitarfélagsins námu 1.859 milljónum og hækka um 2,5% milli ára og rekstrargjöld námu 1.776 milljónum og hækka um 6,4% milli ára. Afskriftir námu tæpum 74 milljónum og fjármagnsgjöld voru um 103 milljónir. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2022 nam 1.651 milljón króna.

Ársreikning Húnaþing vestra 2022 má sjá hér.

Ársreikningurinn var samþykktur á sveitarstjórnarfundi síðastliðinn fimmtudag og í bókun fundarins segir m.a. að neikvæð rekstrarniðurstaða skýrist einkum af tvennu. Annars vegar af fjármagnskostnaði langt umfram áætlun vegna verðbólguþróunar, alls um 46 milljónir og hins vegar af tapi á rekstri málaflokks fatlaðs fólks, um 40 milljónir vegna vanfjármögnunar af hálfu ríkisins. Annar rekstur sveitarsjóðs sé í jafnvægi og standi undir skuldbindingum sveitarfélagsins. Þrátt fyrir það sé ljóst að í hönd fari tímabil þar sem mikilvægt sé að sýna fyllstu aðgæslu í rekstri með áherslu á hagræðingu og niðurgreiðslu skulda.

Sjá má nánari umfjöllun um ársreikninginn í fundargerð sveitarstjórnar frá 11. maí sl.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga