Húsnæði Foodsmart Nordic á Ægisbraut 2.
Húsnæði Foodsmart Nordic á Ægisbraut 2.
Félagið kynnti starfsemi sína í síðustu viku.
Félagið kynnti starfsemi sína í síðustu viku.
Fréttir | 30. maí 2023 - kl. 14:26
Spennandi nýsköpun á Blönduósi

Íslenska hátækni- og nýsköpunarfyrirtækið Foodsmart Nordic er að hefja starfsemi á sviði fæðubótaefna á Blönduósi. Sérhannað húsnæði á Ægisbraut 2 er tilbúið og samtals nemur fjárfestingin á bilinu 500-600 milljónum króna í fasteign og tækjabúnaði. Um er að ræða fyrsta áfanga húsnæðisins á Blönduósi en stefnt er að frekari stækkun þegar fram í sækir. Tilraunaframleiðsla er þegar hafin og fyrirhugað er að formleg starfsemi hefjist á allra næstu mánuðum.

Stefnt að 150 tonna framleiðslu
Foodsmart Nordic framleiðir hágæða fæðubótaefni úr íslensku sjávarfangi sem áður fyrr fór forgörðum. Nýju framleiðslutækin munu skila úrvals hráefni í duftformi og nýtast við þurrkun á breiðu sviði af hráefnum. Í rannsóknarsetri félagsins á Skagaströnd er í dag framleitt kollagen, sæbjúgnaduft og fiskprótein úr íslenskum þorski. Mikill meðbyr er á ört vaxandi markaði fyrir fæðubótarefni í heiminum. Vart verður verulegs áhuga hjá innlendum sem erlendum aðilum á starfsemi félagsins og horfur á sölu ytra teljast vænlegar. Stefnt er að því að framleiða 150 tonn af endanlegum afurðum í þessum fyrsta áfanga fyrirtækisins á Blönduósi og verður framleiðslan gæðavottuð til útflutnings.

Fundið fyrir góðum stuðningi við verkefnið
Forsvarsmenn Foodsmart Nordic eru Katrín Amni Friðriksdóttir og Viðar Þorkelsson. Að þeirra sögn veitir staðsetningin á Blönduósi, sem tengir saman Norður- og Vesturland, félaginu gott aðgengi að hreinni raforku og gnægð af köldu vatni, ásamt nálægð við hreinsistöð. „Við munum að langmestu leyti byggja á heimafólki enda er gríðarleg þekking á landsbyggðinni sem gaman er að geta nýtt. Svo er hér frábært samfélag, allt þetta skiptir framleiðslufyrirtæki miklu máli. Við höfum fundið fyrir dyggum og góðum stuðningi við verkefnið í nærsamfélaginu, bæði hjá fjárfestum og öðrum samstarfsaðilum. Sérstaklega viljum við þakka öflugum hópi iðnaðarmanna og hönnuða á svæðinu sem hafa lagt verkinu lið með sérþekkingu sinni og elju,“ segja Katrín og Viðar.

Bein störf um 15 á næstu 2-3 árum
Þess er vænst að Foodsmart Nordic verði ein af burðarstoðum verðmætasköpunar á svæðinu til frambúðar, auki fjölbreytni í atvinnulífinu og samkeppnishæfni um búsetu. Bein störf á svæðinu í tengslum við reksturinn verða í kringum 15 á næstu 2-3 árum. Þá eru ótalin afleidd störf tengd núverandi uppbyggingu og svo viðskiptum til framtíðar, auk þess sem uppbygging nýsköpunarstarfsemi sem þessarar hefur almennt hvetjandi áhrif á nærumhverfið.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga